Fótbolti

Real Madrid gegn Barcelona er stærsti leikur heims

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Tveir bestu knattspyrnumenn heims kljást í kvöld. Nordic Photos/AFP
Tveir bestu knattspyrnumenn heims kljást í kvöld. Nordic Photos/AFP

Steve McManaman, fyrrum leikmaður Real Madrid og Liverpool, segir að hann myndi velja Lionel Messi fram yfir Cristiano Ronaldo ef hann þyrfti að velja. Hann býst þó við sigri Real Madrid á Camp Nou í kvöld.

Messi og Ronaldo eru almennt taldir vera tveir bestu knattspyrnumenn heims og verður afar áhugavert að fylgjast með þeim tveimur í kvöld.

"Ég var svo lánsamur að spila með Liverpool gegn Man. Utd en leikur Real Madrid og Barcelona er stærsti leikur heims," sagði McManaman sem vann tvo meistaratitla með Real Madrid á sínum tíma.

"Ef ég þyrfti að velja á milli Messi og Ronaldo þá myndi ég velja Messi. Hann er ótrúlega hæfileikaríkur og það er heillandi að horfa á hann rekja boltann. Mér finnst ég alltaf verða vitni að einhverju sérstöku er ég horfi á Messi spila," bætti McManaman við.

"Það er samt ekki mikill munur á þeim enda er Ronaldo stöðugur leikmaður sem er alltaf stórkostlegur. Þetta val snýst bara um hvaða týpu þú vilt hafa í þínu liði. Þetta snýst um smekk."

McManaman, sem vann einnig tvo Meistaradeildartitla með Madrid, hefur trú á því að Mourinho verði sigurvegari kvöldsins.

"'Eg held að Madrid vinni leikinn með einu marki. Það eru svona leikir sem Jose Mourinho lifir fyrir og hann er oftar en ekki sigursæll í slíkum stórleikjum. Ég vona annars að þetta verði opinn leikur og hæfileikamennirnir fái að njóta sín," sagði McManaman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×