Innlent

Björgólfsfeðgar ekki kallaðar fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis

Hvorki Björgólfur Guðmundsson né Björgólfur Thor Björgólfsson hafa verið kallaðir fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið. Björgólfur eldri mun hafa sent nefndinni gögn að eigin frumkvæði en þeir hafa hvorugir verið yfirheyrðir í tengslum við rannsóknina á aðdraganda og orsökum bankahrunsins.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis á að koma út 1. febrúar. Hlutverk nefndarinnar er meðal annars að meta hvort einhver sem tengist bankahruninu hafi brotið af sér, en þá er verið að tala um meiriháttarbrot. Skýrslan mun nú þegar vera um 1500 blaðsíður. Meðal þess sem er til umfjöllunar er útlánastarfsemi bankanna, Icesave málið frá a til ö og atburðarrásin síðustu daga og vikur fyrir bankahrun.

Heimildir fréttastofu herma að hvorki Björgólfur Guðmundsson né Björgólfur Thor Björgólfsson, eigendur Landsbankans, hafi verið kallaðir fyrir nefndina. Björgólfur eldri var sem kunnugt er formaður bankaráðs Landsbankans og Björgólfur Thor jafnframt stærsti eigandi Straums, sem komst í þrot á síðasta ári. Þrátt fyrir að nefndin hafi ekki séð ástæðu til að kalla þá inn, þýðir það ekki að þeir séu undanskildir í skýrslunni. Mun Björgólfur eldri hafa sent inn gögn um sín mál að eigin frumkvæði.

Annað gildir um bankastjórana Sigurjón Árnason og Halldór J. Kristjánsson, sem nefndin tók ítarlega skýrslu af. Þeir stýrðu bankanum þegar Icesave reikningarnir voru settir á legg. Gera má ráð fyrir að flestum yfirheyrslum sé lokið, enda verið að leggja lokahönd á skýrsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×