Fótbolti

Sneijder leiður yfir því að vera ekki einn af þeim þremur bestu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wesley Sneijder.
Wesley Sneijder. Mynd/AFP
Hollendingurinn Wesley Sneijder hefur viðurkennt að hann sé mjög vonsvikinn að hann komi ekki lengur til greina sem besti knattspyrnumaður heims. Barcelona-mennirnir Lionel Messi, Xavi og Andrés Iniesta enduðu í þremur efstu sætunum í kjöri FIFA og blaðsins France Football.

Sneijder átti samt ótrúlegt ár. Hann var lykilmaður á bak við þrennuna hjá ítalska liðinu Inter Milan og þá var hann aðalmaðurinn hjá hollenska landsliðinu sem komst alla leið í úrslitaleikinn á HM í Suður-Afríku í sumar.

„Ég vil óska þeim Messi, Xavi og Iniesta til hamingju þó að ég sé leiður yfir þessu," sagði Sneijder í viðtali við hollenska blaðið Telegraaf.

„Ég get bara ekkert gert í þessu. Það vilja allir að ég segi eitthvað en ég get bara ekkert sagt. Ég er þreyttur eftir erfitt ár en ég vil enda árið á því að vinna Heimsmeistarakeppni félagsliða," sagði Sneijder.

Wesley Sneijder vann Meistaradeildina með Inter.Mynd/AFP
Massimo Moratti, forseti Inter, tjáði sig líka um það að Sneijder hafi ekki verið í hóp þriggja efstu manna í kjörinu þrátt fyrir magnað ár.

„Þetta er mjög ósanngjarnt. Sneijder átti stórbrotið ár og vann allt sem hann gat. Að mínu mati þá átti hann Gullboltann skilinn," sagði Massimo Moratti á heimasíðu Inter.

„Það er mjög ósanngjarnt að þessi verðlaun fari til leikmanns, sem er vissulega frábær leikmaður en sýndi ekki stöðugleika allt þetta ár," bætti Moratti við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×