Innlent

Dofri og Sigrún Elsa hætta

Dofri Hermannsson
Dofri Hermannsson

Hvorki Dofri Hermannsson né Sigrún Elsa Smáradóttir, sem skipuðu sjötta og sjöunda sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar, taka sæti nefndum eða ráðum á vegum borgarinnar sem skipað hefur verið í á nýjan leik.

Dofri, sem verið hefur varaborgarfulltrúi frá 2006, og Sigrún Elsa, sem hefur verið varaborgarfulltrúi og síðar borgarfulltrúi í tólf ár, eru þau einu af efri helmingi hins 30 manna framboðslista flokksins sem ekki taka neitt sæti sem aðal- eða varafulltrúar. Dofri segir það ekki vera starf að vera þriðji varaborgarfulltrúi og því hafi hann þurft að leita fyrir sér með vinnu í kjölfar kosninganna.

„Það er erfitt að leita sér að starfi um leið og maður segir að maður þurfi að vera á fundum svo og svo marga daga í viku, þannig að það varð mín niðurstaða að ég myndi stíga núna eitt skref til baka.“ Í því felist þó engin yfirlýsing um að hann sé hættur í pólitík og að hann styðji nýjan meirihluta.

Sigrún Elsa vildi ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið hafði samband við hana. Samkvæmt heimildum blaðsins sóttist hún eftir því að halda sæti sínu í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að loknum kosningum en fékk ekki. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×