Körfubolti

Fjögur NBA-lið skiptu um leikmenn í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darren Collison.
Darren Collison. Mynd/AP
Það voru stór leikmannaskipti í NBA-deildinni í körfubolta í gær þegar fjögur skiptu á milli sín leikmönnum. Liðin sem skiptu á leikmönnum voru Indiana Pacers, New Orleans Hornets, New Jersey Nets og Houston Rockets.

Framherjinn Troy Murphy fer frá Indiana til New Jersey, leikstjórnandinn Darren Collison og framherjinn James Posey fara frá New Orleans til Indiana, bakvörðurinn Courtney Lee fer frá New Jersey til Houston og framherjinn Trevor Ariza fer frá Houston til New Orleans.

Darren Collison stóð sig vel í forföllum Chris Paul á síðasta tímabili og var með 12,4 stig og 5,7 stoðsendingar að meðaltali þar af 18,8 stig og 9,1 stoðsendingar í leik þegar hann var í byrjunarliðinu.

Troy Murphy hefur spilað 262 leiki fyrir Indiana og var með 13,3 stig og 9,2 fráköst að meðaltali í þeim. Hann er öflugur frákastari og góð þriggja stiga skytta sem sést á því að hann er með 39 prósent þriggja stiga nýtingu á ferlinum,.

James Posey hefur orðið NBA-meistari með bæði Miami (2006) og Boston (2008) en hann var aðeins með 5,2 stig og 4,3 fráköst að meðaltali með New Orleans á síðasta tímabili.

Trevor Ariza varð NBA-meistari með Los Angeles Lakers 2009 en fékk síðan betri samning og fór til Houston þar sem hann var með 14,9 stig að meðaltali í leik á síðasta tímabili.

Courtney Lee sló í gegn hjá Orlando Magic sem nýliði tímabilið 2008-09 en hann fór síðan til New Jersey þar sem hann var með 12,5 stig að meðaltali í leik.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×