Fótbolti

Nemanja Vidic vill vera hjá Manchester United til 2012

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nemanja Vidic og Sir Alex Ferguson bregða á leik á æfingu.
Nemanja Vidic og Sir Alex Ferguson bregða á leik á æfingu. Mynd/AFP
Serbinn Nemanja Vidic hefur komið fram og eytt sögusögnum um að hann vilji fara frá Manchester United en miðvörðurinn hefur ekkert spilað með United á árinu 2010 vegna meiðsla á kálfa. Vidic tjáði sig um málið í viðtalið við serbneska blaðið Vecernje Novosti í Belgrad.

Nemanja Vidic segir þar að ekkert sé að sambandi hans og stjórans Sir Alex Ferguson eins og skrifaði hafi verið um í fjölmiðlum á síðustu dögum. Vidic er sáttur hjá Manchester United og ætlar sér að klára samninginn sinn sem rennur út 2012.

„Ég hef aldrei lent í einhverjum útistöðum við Sir Alex Ferguson og það er algjörlega ósatt að ég vilji fara frá United," segir Vidic í viðtalinu.

„Ég er með samning við United til ársins 2012 og ég ætla mér að virða hann til síðasta dags. United gerði mig að þeim leikmanni sem ég er í dag og það er ekkert til í því að ég sé að reyna að komast til Real Madrid og AC Milan," segir Vidic.

Vidic stefnir á það að verða með í seinni leiknum á móti AC Milan í Meistaradeildinni en hann fer fram 10. mars næstkomandi.

„Ég held að ég komist aftur af stað mjög fljótlega og vonandi kemst ég sem fyrst í mitt besta form og inn í byrjunarliðið," sagði Vidix og hrósaði félögum sínum í liðinu fyrir að hafa náð frábærum úrslitum í Mílanó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×