Innlent

Hækka viðmið um 20 til 25%

Gjafsókn Einstaklingur með tekjur undir tveimur milljónum mun geta fengið gjafsókn eftir að Ögmundur Jónasson hækkar tekjuviðmiðið.Fréttablaðið/GVA
Gjafsókn Einstaklingur með tekjur undir tveimur milljónum mun geta fengið gjafsókn eftir að Ögmundur Jónasson hækkar tekjuviðmiðið.Fréttablaðið/GVA

Tekjuviðmið vegna gjafsóknar verða hækkuð um 20 til 25 prósent í kjölfar fjölmargra ábendinga um að viðmiðið sé of lágt, sagði Ögmundur Jónasson, dómsmála- og mannréttindaráðherra, á Alþingi í gær.

Með því að sækja um að fá gjafsókn fyrir dómstólum geta tekjulágir höfðað mál þótt þeir hafi ekki efni á því að bera kostnað við málsóknina. Gjafsóknarnefnd þarf að samþykkja umsóknina, en geri hún það fellur kostnaður við málsóknina á ríkið.

Eitt af því sem gjafsóknarnefnd þarf að horfa til eru tekjur þeirra sem sækja um. Árstekjur þeirra sem sækja um þurfa að vera undir 1,6 milljónum, eða 2,5 milljónum í tilviki hjóna eða sambúðarfólks.

Tekjuviðmiðin munu hækka um 25 prósent, í tvær milljónir króna, fyrir einstaklinga, og um 20 prósent, í þrjár milljónir króna, fyrir sambúðarfólk.

Ögmundur sagði kostnað vegna gjafsókna falla á ríkið einu til tveimur árum eftir að gjafsókn er veitt. Rýmkun á heimild muni því ekki auka útgjöld ríkisins strax. Málið er nú í skoðun í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×