Innlent

Óstarfhæf ríkisstjórn

Heimir Már Pétursson skrifar

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir ríkisstjórnina óstarfhæfa og hún ráði ekki við Magma-málið með neikvæðum áhrifum á atvinnulífið á Reykjanesi. Enginn meirihluti sé fyrir því á Alþingi að þjóðnýta HS Orku eins og Vinstri grænir virðist vilja.

Magma Energy hefur boðið stjórnvöldum forkaupsrétt á hlut sínum í HS Orku og boðist til að stytta þann tíma sem fyrirtækið hefur til nýtingar á orku á Reykjanesi. Iðnaðarráðherra sagði í gær að hún liti á þetta tilboð sem tilraun fyrirtækisins til sátta við íslenskt samfélag og ætlar að funda með forsvarsmönnum þess í vikunni. Atli Gíslason fulltrúi Vinstri grænna í Iðnaðarnefnd Alþingis sagði hins vegar að þetta tilboð dygði honum ekki. Þótt rannsókn leiddi í ljós að eign Magma á HS Orku væri lögleg, vildi hann samt að ríkið leysti eignir fyrirtækisins til sín.

„Þessi staða er auðvitað eitt klúður. Staðan er sú að ríkisstjórnin ræður ekki við þetta mál. Við fáuum misvísandi skilaboð frá stjórnarflokkunum í hverri vikunni á fætur annarri. Magma reynir hvað fyrirtækið getur að teygja sig til iðnaðarráðherrans og ríkisstjórnarinnar með hugmyndir . En það það gengur ekki neitt og málið er í hnút vegna þess að við erum með óstarfhæfa ríkisstjórn," segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni rifjar upp að þingmenn Vinstri grænna hafi greitt atkvæði gegn fjárfestingarsamningi um álver í Helguvík á Alþingi í fyrra, en málið komist í gegn með stuðningi stjórnarandstöðunnar og Samfylkingarinnar. Vinstri grænir reyni enn að bregða fæti fyrir þessa uppbyggingu.

„Þannig að þetrta er auðvitað ein leið fyrir Vinstri græna til þess að koma í veg fyrir að þau áform nái fram að ganga," segir formaðurinn.

Bjarni segir getuleysi ríkisstjórnarinnar og ósætti innan hennar bitna á atvinnumálum á Reykjanesi og víðar og fæla fjárfesta frá landinu.

„Ég hef enga trú á að það sé meirihluti fyrir því að þjóðnýta fyrirtækið," segir Bjarni. Hægt sé að ræða ýmsar leiðir, t.d. að stytta leigutímann. En ríkisstjórnin í landinu hafi engin tök á málinu.

„Hún er ekki með neina stefnu í málinu," segir formaður Sjálfstæðisflokksins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×