Körfubolti

NBA: Dallas úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manu Ginobili og Tim Duncan í leiknum í nótt.
Manu Ginobili og Tim Duncan í leiknum í nótt. Mynd/AP

San Antonio og Phoenix tryggðu sér í nótt sæti í undanúrslitum Vesturdeildarinnar í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta á kostnað Dallas og Portland.

Báðum rimmum liðanna lauk með 4-2 sigri tveggja fyrstnefndu liðanna. Þetta voru þó sérstaklega mikil vonbrigði fyrir Dallas sem náði öðru sæti Vesturdeildarinnar í vor en San Antonio aðeins sjöunda sætinu.

Dallas byrjaði skelfilega í leiknum og skoraði aðeins átta stig í fyrsta leikhlutanum. San Antonio komst í 22 stiga forystu í öðrum leikhluta en þá ákvað Rick Carlisle, þjálfari Dallas, að setja nýliðann Rodrigue Beaubois inn á völlinn.

Hann svaraði kallinu og sá til þess, ásamt Dirk Nowitzky, að Dallas komst aftur inn í leikinn og náði meira að segja yfirhöndinni í þriðja leikhluta, 57-56.

En þá tóku heimamenn aftur til sinna ráða og fögnuðu að lokum öruggum sigri, 97-87. George Hill átti stórleik í fjórða leikhluta og skoraði þá tíu af sínu 21 stigi í leiknum. Hann hitti úr öllum fjórum skotum sínum í leikhlutanum. Manu Ginobili var stigahæstur hjá San Antonio með 26 stig og Tim Duncan var með sautján, tíu fráköst og fimm stoðsendingar.

Hjá Dallas var Nowitzky stigahæstur með 33 stig, Caron Butler skoraði 25 og Beaubois sextán.

Phoenix vann Portland, 99-90, og mætir nú San Antonio í undanúrslitum. Fyrsti leikur liðanna verður í Phoenix á mánudagskvöldið.

Phoenix var með undirtökin allan leikinn þó svo að Portland hafi aldrei verið langt undan. Jason Richardson skoraði 28 stig fyrir Phoenix og Amare Stoudemire 22.

Hjá Portland var Martell Webster með nítján stig og þeir LaMarcus Aldridge og Rudy Fernandez sextán hvor.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×