Fótbolti

Real Madrid tók toppsætið aftur af Barcelona - þrenna hjá Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar einu marka sinna í kvöld.
Cristiano Ronaldo fagnar einu marka sinna í kvöld. Mynd/AP
Real Madrid vann 5-1 sigur á Athletic Bilbao í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld og tók því toppsætið af Barcelona. Börsungar sátu á toppnum í tvo tíma eftir 8-0 sigur á Almería fyrr í kvöld.

Cristiano Ronaldo skoraði þrennu fyrir Real Madrid í leiknum og er þessi portúgalski snillingur því kominn með fimmtán mörk í fyrstu tólf umferðunum í spænsku deildinni.

Gonzalo Higuaín kom Real Madrid í 1-0 á 19. mínútu eftir sendingu frá Ángel Di María og Cristiano Ronaldo skoraði síðan á 30. mínútu eftir snilldarsókn og stoðsendingu frá Mesut Özil.

Fernando Llorente minnkaði muninn fyrir Bilbao fjórum mínútum fyrir hálfleik en Real gerði endanlega út um leikinn með tveimur mörkum á fyrstu 17 mínútunum í seinni hálfleik.

Sergio Ramos skoraði fyrst úr vítaspyrnu á 57. mínútu sem Ángel Di María fékk og Ronaldo skoraði síðan beint úr aukaspyrnu á 62. mínútu.

Cristiano Ronaldo innsiglaði síðan þrennuna sína í uppbótartíma þegar hann skoraði úr víti sem hann þurfti reyndar að taka tvisar sinum.

Real Madrid hefur eins stigs forskot á Barcelona en liðin mætast síðan í El Clasico á mánudaginn eftir rúma viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×