Körfubolti

NBA: Gasol tók frákastið af lokaskoti Kobe og tryggði Lakers áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pau Gasol og Kobe Bryant.
Pau Gasol og Kobe Bryant. Mynd/AP
Los Angeles Lakers og Utah Jazz tryggðu sér sæti í 2. umferð NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Los Angeles Lakers vann nauman eins stigs sigur á Oklahoma City Thunder en Utah Jazz vann átta stiga sigur á Denver Nuggets. Atlanta Hawks vann hinsvegar Milwaukee Bucks og tryggði sér oddaleik á sunnudaginn.

Pau Gasol tók sóknarfrákastið af lokaskoti Kobe Bryant, skoraði þegar hálf sekúnda var eftir af leik Los Angeles Lakers og Oklahoma City Thunder og Lakers vann því leikinn 95-94 og einvígið 4-2.

Kobe Bryant var með 32 stig í leiknum en Gasol var með 9 stig og 18 fráköst. Sigurkarfan var eina karfa Spánverjans í seinni hálfleiknum.

Kevin Durant var með 26 stig hjá Oklahoma City en hitti aðeins úr 5 af 23 skotum. Russell Westbrook var með 21 stig og 9 stoðsendingar.

Carlos Boozer var með 22 stig og 20 fráköst þegar Utah Jazz vann 112-104 sigur á Denver Nuggets og þar með einvígið 4-2. Nýliðinn Wesley Matthews var með 23 stig fyrir Utah og Deron Williams bætti við 14 stigum og 10 stoðsendingum.

Chauncey Billups var með 30 stig fyrir Denver og Carmelo Anthony var með 20 stig en hitti aðeins úr 6 af 22 skotum sínum.

Los Angeles Lakers mætir Utah Jazz í næstu umferð og fyrsti leikur liðanna verður í Los Angeles á sunnudaginn.

Jamal Crawford, besti sjötti maður deildarinnar, kom með 24 stig inn af bekknum þegar Atlanta Hawks vann 83-69 sigur á Milwaukee Bucks, jafnaði einvígið í 3-3 og tryggði sér oddaleik á sunnudaginn. Milwaukee var öllum að óvörum búið að vinna þrjá leiki í röð.

Joe Johnson var líka með 22 stig fyrir Atlanta og Al Horford var með 15 stig og 15 fráköst. Carlos Delfino skoraði 20 stig fyrir Milwaukee en bakverðirnir John Salmons (8 stig, hitti úr 2 af 13 skotum) og Brandon Jennings (12 stig, hitti úr 4 af 15) brugðust.

Úrslit leikja í nótt, staðan í einvígunum og næsti leikur:

Milwaukee Bucks-Atlanta Hawks 69-83

(Staðan er 3-3 og oddaleikurinn er í Atlanta á sunnudag)

Oklahoma City Thunder-Los Angeles Lakers 94-95

(Los Angeles Lakers vann 4-2 og mætir Utah í fyrsta leik á sunnudag)

Utah Jazz-Denver Nuggets 112-104

(Utah vann 4-2 og mætir Los Angeles Lakers í fyrsta leik á sunnudag)

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×