Innlent

Senda farsíma í endurvinnslu

Farsími Vodafone og Græn Framtíð standa að söfnun og endurnýtingu gamalla símtækja.
Farsími Vodafone og Græn Framtíð standa að söfnun og endurnýtingu gamalla símtækja.

Í stað þess að henda gömlum eða ónothæfum farsímum í ruslið geta eigendur þeirra nú skilað þeim í söfnunarkassa sem komið hefur verið fyrir í verslunum Vodafone.

Um er að ræða samstarfsverkefni milli Vodafone og Grænnar framtíðar, sem hefur umhverfisvernd að markmiði. Í stað þess að tækin endi á sorphaugum landsins eru þau flutt utan til fyrirtækja sem lagfæra þau, eða búa til nýja síma með því að sameina íhluti úr nokkrum tækjum í eitt.

Endurnýtingarfyrirtækin greiða fyrir tækin og rennur allur ávinningur til SAFT, vakningarátaks um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi.

Græn framtíð er íslenskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í endurnýtingu á raftækjum og mun flytja símana út.

Hrannar Pétursson, talsmaður Vodafone, segist vonast til þess að viðskiptavinir og starfsfólk muni taka virkan þátt í verkefninu.

„Með því getur fólk látið gott af sér leiða í tvennum skilningi. Annars vegar til hagsbóta fyrir umhverfið og hins vegar með því að styðja frábært starf SAFT.“ - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×