Körfubolti

Lítt þekktur þjálfari Oklahoma City valinn besti þjálfari ársins í NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scott Brooks, þjálfari Oklahoma City Thunder með stigakónginum Kevin Durant
Scott Brooks, þjálfari Oklahoma City Thunder með stigakónginum Kevin Durant Mydn/AP
Scott Brooks, þjálfari Oklahoma City Thunder, var í gær valinn besti þjálfari ársins í NBA-deildinni en undir hans stjórn hefur Oklahoma-liðið farið frá því að vera eitt lélegasta lið deildarinnar í að vinna 50 leiki og komast í úrslitakeppnina á þessu tímabili.

Scott Brooks fékk 480 stig í kosningu körfuboltafréttamanna í NBA og 71 af 123 völdu hann þjálfara ársins. Scott Skiles hjá Milwaukee (313 stig, 26 í 1. sæti) og Nate McMillan hjá Portland (107 stig, 9 í 1. sæti) komu næstir.

Yfirmenn Oklahoma City Thunder veðjuðu á hinn lítt þekkta Scott Brooks og hann launaði þeim traustið. Liðið byrjaði strax að bæta sig seinni hluta síðasta tímabils og vann síðan 27 fleiri leiki í vetur en í fyrra.

Oklahoma City Thunder liðið spilar mjög lifandi og skemmtilegan liðsbolta og það er ekki síður skemmtilegt að fylgjast með þeim í vörninni en í sókninni þar sem þeir vinna ótrúlega vel saman.

Oklahoma City Thunder byrjaði úrslitakeppnina á tveimur töpum á móti NBA-meisturunum í Los Angeles Lakers en næstu tveir leikir eru í Oklahoma City.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×