Fótbolti

David Beckham er handviss um að Rooney spili á móti AC Milan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham tekur aukaspyrnu í fyrri leiknum á móti Manchester United.
David Beckham tekur aukaspyrnu í fyrri leiknum á móti Manchester United. Mynd/Getty Images
David Beckham, miðjumaður AC Milan og fyrrum leikmaður Manchester United, mætir á morgun á Old Trafford í fyrsta sinn í sjö ár þegar United tekur á móti AC Milan í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Wayne Rooney hefur verið að glíma við hnémeiðsli og er tæpur fyrir leikinn en hann spilaði ekki í ensku deildinni um helgina.

„Ég er handviss um það að Rooney spili þennan leik. Hann var að glíma við meiðsli en fékk alla helgina til að ná sér góðum," sagði David Beckham í viðtali á AC Milan sjónvarpsstöðinni.

„Hann vill örugglega spila þennan leik og Alex Ferguson mun nota sitt besta lið. Ferguson passar upp á sína leikmenn," segir David Beckham.

„Ég er ekki hræddur við það að spila aftur á Old Trafford ef ég fæ að spila þennan leik heldur er ég fullur af spenningi. Ég spilaði á þessum velli á mörg ár og þekki það hvað það þýðir að vera Manchester United leikmaður," sagði Beckham sem gæti misst sæti sitt í AC Milan liðinu þar sem að Alexandre Pato, Clarence Seedorf og Gennaro Gattuso eru allir klárir í leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×