Körfubolti

Forskot tekið á úrslitakeppnina í kvöld þegar Boston vann Cleveland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antawn Jamison tekur hér vel á móti Kevin Garnett í leiknum í kvöld.
Antawn Jamison tekur hér vel á móti Kevin Garnett í leiknum í kvöld. Mynd/AP

Ray Allen var í miklu stuði þegar Boston Celtics vann 117-113 sigur á Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni í körfubolta í kvöld en hann skoraði 33 stig þar af setti hann niður mikilvægan þrist 48 sekúndum fyrir leikslok. Það var hart tekist á í leiknum og það má segja að liðin hafi þarna tekið forskot á úrslitakeppnina sem hefst seinna í mánuðinum.

Dómararnir dæmdu alls sex tæknivillur í leiknum, Mike Brown, þjálfari Cleveland, var rekinn út úr húsi og undir lokin mátti sjá Kevin Garnett og LeBron James láta hvorn annan heyra það. Það er líklegt að þessi lið mætist í úrslitakeppninni og ef marka má andrúmsloftið í þessum leik gæti það orðið svakalegt einvígi enda unnu liðin tvo leiki gegn hvoru öðru í deildarkeppninni.

Boston Celtics fór illa með Cleveland framan af leik og náði mest 22 stiga forskoti í leiknum sem svo gufaði upp í lokin. Kevin Garnett var með 19 stig, Paul Pierce skoraði 16 stig og Kendrick Perkins var með 10 stig og 10 fráköst.

LeBron James skoraði 20 af 42 stigum sínum í fjórða leikhluta þegar Cleveland-liðið vann upp 17 stiga forskot Boston.

James brást hinsvegar á úrslitastundu, klikkaði á tveimur vítaskotum á sextán síðustu sekúndunum og tók illa íhugað þriggja stiga skot á lokasekúndunum þegar hann var búinn að klikka á átta fyrstu þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Antawn Jamison var með 16 stig og 10 fráköst hjá Cleveland og J.J. Hickson bætti við 14 stigum og 11 fráköstum. Þrátt fyrir stigin 42 var LeBron James ískaldur því hann hitti aðeins úr 1 af 15 skotum sínum sem hann tók af lengra en fimm metra færi.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×