Innlent

Fækkað um 1.240 á einu ári

Landsmönnum fækkaði um 0,4 prósent frá 1. júlí í fyrra til 1. júlí í ár. Þeta er í fyrsta sinn sem landsmönnum fækkar á einu ári síðan árið 1888 þegar töluverður hópur Íslendinga fluttist vestur um haf til Ameríku. Þá fækkaði landsmönnum um 1.724 frá árinu 1887 eða um 2,4 prósent.

Landsmenn voru 318.006 1. júlí 2010 en voru 319.246 ári fyrr. Íbúum á landinu fækkaði því um 1.240 á einu ári. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofunni.

Íbúum fækkaði í öllum landshlutum nema Norðurlandi-eystra á tímabilinu. Þar fjölgaði íbúum um 103 eða 0,4 prósent. Mest var fækkunin á Suðurnesjum eða 1,6 prósent en á Suðurlandi og á Vestfjörðum fækkaði íbúum um 1,5 prósent.

Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði íbúum um 248 milli ára eða 0,1 prósent. Þar búa nú 63,6 prósent þjóðarinnar. Í Reykjavík fækkaði íbúum um 533 og í Hafnarfirði um 172 en í Kópavogi fjölgaði íbúum um 151 milli ára.

Íslendingar eru vel í sveit settir hvað varðar heimildir um mannfjölda, en til þessara heimilda teljast manntöl og kirkjubækur, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. Þannig telst elsta íslenska manntalið, sem unnið var upp úr Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, vera fyrsta heildarmanntalið í heiminum.

Fram til ársins 1888 var fólksfækkun síður en svo óalgeng á Íslandi og höfðu farsóttir, veðurfar og hamfarir mest um það að segja að ógleymdum Vesturferðunum á seinni hluta 19. aldar.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×