Fótbolti

Real Madrid sendi námuverkamönnunum í Chile áritaðar treyjur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karim Benzema og Cristiano Ronaldo.
Karim Benzema og Cristiano Ronaldo. Mynd/AP
Spænska stórliðið Real Madrid hefur gert sitt til að hughreysta námuverkamennina sem lokuðust í koparnámu í norðurhluta Chile 5. ágúst síðastliðinn. Viðamikil björgunaraðgerð stendur nú yfir til þess að ná mönnunum upp á yfirborðið en hún hefur staðið yfir í rétt tæpa tvo mánuði og er langt frá því að vera lokið.

Forráðamenn Real Madrid ákváðu að senda námuverkamönnunum áritaðar treyjur af stórstjörnununum í sínu liði auk þess að námuverkamönnunum verður boðið að leik með Real Madrid þegar þeir sleppa út úr prísundinni. Námuverkamanna-ráðherra Chile tók á móti gjöfinni frá Spáni en auk treyjanna voru myndaalbúm af leikmönnum Real Madrid.

Á heimasíðu Real Madrid má sjá mynd af þeim Jose Mourinho, Cristiano Ronaldo, Iker Casillas og Sergio Ramos skrifa á treyjurnar sem eru svartar og hvítar, með númer 33 á bakinu og á þeim stendur "Verið sterkir".

David Villa hafði áður sent námuverkamönnunum tvær áritaðar Barcelona-treyjur en fjöldskylda hans hafði unnið við námugröft í gegnum margar kynslóðir.

Einn af námuverkamönnunum 33 er hinn 55 ára gamli Franklin Lobos sem var atvinnuknattspyrnumaður á sínum tíma og spilaði meðal annars með landsliði Chile snemma á níunda áratugnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×