Fótbolti

Úrslitaleikur spænska bikarsins á heimavelli Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Barcelona fagna sigri í spæsnku bikarkeppninni í fyrra.
Leikmenn Barcelona fagna sigri í spæsnku bikarkeppninni í fyrra. Mynd/Getty Images
Úrslitaleikurinn í spænsku bikarkeppninni í ár, Copa del Rey, mun fara fram á Camp Nou, heimavelli Evrópumeistara Barcelona. Þetta var tilkynnt í dag en það tók spænska knattspyrnusambandið margar vikur að finna staðsetningu fyrir leikinn.

Barcelona-menn verða þó ekki á heimavelli í leiknum því þar munu mætast lið Atletico Madrid og Sevilla. Sevilla sló Barcelona-liðið út úr 16 liða úrslitum. Barcelona vann 4-1 sigur á Athletic Bilbao í úrslitaleiknum í fyrra sem fram fór í Valencia.

Það verður ekki ákveðið fyrr en eftir seinni leik Atletico Madrid og Liverpool í Evrópudeildinni hvenær úrslitaleikurinn muni fara fram en komist Atletico Madrid áfram þá fer úrslitaleikurinn í Evrópudeildinni fram 12. maí í Hamburg í Þýsklandi.

Þetta er í þriðja sinn frá upphafi sem Camp Nou hýsir bikarúrslitaleikinn sem fór líka fram það árin 1957 og 1990.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×