Körfubolti

NBA: LeBron skoraði 40 stig - Utah jafnaði einvígið gegn Denver

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James var frábær í nótt.
LeBron James var frábær í nótt. Mynd/AP
LeBron James skoraði 40 stig fyrir Cleveland Cavaliers sem vann 112-102 sigur á Chicago Bulls í NBA-deildinni í nótt og er þar með komið í 2-0 í einvígi liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Utah Jazz jafnaði hinsvegar metin á móti Denver með 114-111 útisigri í hinum leik næturinnar.

LeBron James tók yfir leikinn fyrir Cleveland-liðið í lokin eins og hann er þekktur fyrir. Hann skoraði meðal annars ellefu stig Cavaliers í röð þegar Cleveland breytti stöðunni úr 96-93 í 107-98. LeBron var auk stiganna 40 með 8 fráköst og 8 stoðsendingar í leiknum.

Joakim Noah var með 25 stig og 13 fráköst hjá Chicago, Derrick Rose bætti við 23 stigum og Luol Deng skoraði 20 stig. James var í algjörum sérflokki hjá Cleveland en Antawn Jamison kom næstur honum með 14 stig. Shaquille O'Neal var aðeins með 8 stig á 15 mínútum.

Deron Williams var með 33 stig og 14 stoðsendingar þegar Utah Jazz vann 114-111 útisigur á Denver Nuggets og staðan er því 1-1 í einvíginu. Carlos Boozer var með 20 stig og 15 fráköst hjá Utah sem lék án byrjunarliðsmannanna Andrei Kirilenko og Mehmet Okur sem eru meidddir.

Carmelo Anthony skoraði 32 stig fyrir Denver en hann var með 42 stig í fyrsta leiknum. Anthony hitti hinsvegar aðeins úr 9 af 25 skotum sínum. Nene Hilario var með 18 stig og Chauncey Billups skoraði 17 stig og gaf 11 stoðsendingar.

Úrslitin í nótt og staðan í einvígunum:

Cleveland Cavaliers-Chicago Bulls 112-102

(Staðan í einvíginu er 2-0 fyrir Cleveland)

Denver Nuggets-Utah Jazz 111-114

(Staðan í einvíginu er 1-1)



Í nótt mætast:

Atlanta Hawks-Milwaukee Bucks [Staðan er 1-0]

Boston Celtics-Miami Heat [Staðan er 1-0]

Phoenix Suns-Portland Trail Blazers [Staðan er 0-1]

Los Angeles Lakers-Oklahoma City Thunder [Staðan er 1-0]



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×