Körfubolti

NBA-deildin: Óvænt tap hjá Boston gegn botnliði New Jersey

Ómar Þorgeirsson skrifar
Kevin Garnett hjá Boston.
Kevin Garnett hjá Boston. Nordic photos/AFP

Sjö leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í gærkvöldi og nótt þar sem hæst bar óvæntur 96-104 sigur New Jersey á útivelli gegn Boston.

New Jersey situr sem fastast á botni deildarinnar með lélegast árangur allra liða en þetta var aðeins sjötti sigur liðsins á tímabilinu í fimmtíu og átta leikjum.

Brook Lopez var stigahæstur hjá gestunum með 25 stig en Kevin Garnett var stighæstur heimamanna í Boston með 26 stig og hann var vitanlega allt annað en sáttur í leikslok.

„Ég hef nákvæmlega ekkert að segja. Mér líður bara ömurlega ef ég á að segja eins og er," sagði Garnett svekktur í leikslok.

Utah hélt uppteknum hætti með 133-110 stórsigri gegn Houston en Deron Williams var stigahæstur hjá Utah með 35 stig en Kevin Martin var með 32 stig fyrir Houston.

Þá hélt sigurganga Milwaukee áfram þegar liðið vann 71-94 sigur gegn Miami en þetta var sjötti sigur Milwaukee í röð og liðið klifrar nú hægt og bítandi upp töfluna í Austurdeildinni.

John Salmons var stigahæstur hjá Milwaukee með 18 en hjá Miami, sem lék enn án hins meidda Dwayne Wade, var Jermaine O'Neal stigahæstur með 14 stig.

Úrslitin í gærkvöldi og nótt:

Boston-New Jersey 96-104

Miami-Milwaukee 71-94

Indiana-Chicago 100-90

New York-Memphis 109-120

Minnesota-Portland 91-110

Utah-Houston 133-110

Golden State-Detroit 95-88









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×