Innlent

Einu kartöflubændurnir á Vesturlandi

Helgi og Þóra Kristín með upptökuvélina góðu á milli sín. Hún er nokkurra ára gömul og var keypt þegar evran fékkst á 80 krónur og auðveldara var að endurnýja tækin. Fréttablaðið/Stefán
Helgi og Þóra Kristín með upptökuvélina góðu á milli sín. Hún er nokkurra ára gömul og var keypt þegar evran fékkst á 80 krónur og auðveldara var að endurnýja tækin. Fréttablaðið/Stefán

„Þetta er auðvitað viss áhætta, maður veit aldrei hversu mikil uppskeran verður,“ segir Þóra Kristín Magnúsdóttir, bóndi á Hraunsmúla í Staðarsveit á Snæfellsnesi, spurð hvernig standi á því að hún og maður hennar, Helgi Sigurmonsson bóndi, séu einu kartöflubændurnir á öllu Vesturlandi. „Það voru fleiri í þessu hér áður fyrr en svo hættu allir nema við.“ Þóra og Helgi höfðu nýlokið við að setja niður útsæðið þegar Fréttablaðið hitti þau.



Í fyrra varð uppskeran 70 tonn af kartöflum úr þriggja hektara landi en Þóra og Helgi segja ómögulegt að spá fyrir um uppskeruna í ár. „Það fer allt eftir því hvað þú lofar mér mikilli rigningu, það er yfirleitt nóg af sólinni,“ segir Helgi sem rifjar upp að í fyrra hafi verið þurrkar í tvo mánuði sem hafi gert þeim erfitt fyrir.



Stolt heimilisins er svo upptökuvélin sem keypt var fyrir nokkrum árum en hún tók við af 40 ára gamalli græju. „Við vorum svo heppin að kaupa vélina þegar evran var 80 krónur,“ segir Helgi og hlær.



Fyrir utan kartöflurnar gera hjónin út bát frá Arnarstapa. „Meira þurfum við ekki enda börnin uppkomin,“ segir Þóra Kristín. - sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×