Sport

Ragnheiður í undanúrslit í Eindhoven

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnheiður Ragnarsdóttir.
Ragnheiður Ragnarsdóttir.

Ragnheiður Ragnarsdóttir komst öðru sinni í undanúrslit á Evrópumeistaramótinu í sundi í 25 metra laug sem fer fram í Endhoven í Hollandi.

Ragnheiður varð í níunda sæti í undanrásum í 50 metra skriðsundi á 25,14 sekúndum. Það er 0,2 sekúndum frá Íslandsmeti hennar sem hún setti í fyrra.

Ragnheiður fer þó inn í undanúrslitin með sjöunda besta tímann þar sem að aðeins tveir keppendur frá hverju landi komast áfram upp úr undanriðlunum. Alls náðu þrír Hollendingar og þrír Þjóðverjar betri tíma en Ragnheiður en þar af detta tveir úr leik.

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, SH, varð í 21. sæti í greininni er hún synti á 25,72 sekúndum. Hún var aðeins 0,13 sekúndum frá sæti í undanúrslitunum.

Bryndís Rún Hansen, Óðni, keppti í sömu grein og varð í 32. sæti á 26,22 sekúndum.

Hrafn Traustason, SH, keppti í 200 m bringsundi og kom síðastur í mark af 23 keppendum. Hann synti á 2:19,72 mínútum.

Ragney Líf Stefánsdóttir, Íþróttasambandi fatlaðra, keppti í 50 skriðsundi í fötlunarflokki S8-S10 og varð í tíunda sæti á 34,85 sekúndum af alls tíu keppendum.

Þar með hafa fjórir af fimm íslensku keppendunum lokið keppni í Eindhoven en Ragnheiður syndir í undanúrslitunum í 50 m etra skriðsundi síðar í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×