Innlent

Kirkjuráð biðst fyrirgefningar

Kirkjuráð biður fórnarlömb Ólafs Skúlasonar biskups fyrirgefningar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá kirkjuráði. Þar kemur fram að Kirkjuráð trúi frásögnum þeirra Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur og Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og fyrir hönd þjóðkirkjunnar biðji kirkjuráð þær og aðra þá sem brotið hefur verið á af hálfu starfsmanna og þjóna kirkjunnar fyrirgefningar.

Yfirlýsing er hér í heild sinni.

„Kirkjuráð samþykkti eftirfarandi yfirlýsingu á fundi sínum þann 25. ágúst 2010:

Kirkjuráð hefur átt fundi með Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur og Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur þar sem þær lýstu sögu sinni sem þolendur kynferðisbrota. Kirkjuráð trúir frásögnum þeirra og tekur undir orð biskups Íslands í fjölmiðlum í dag þess efnis.

Fyrir hönd þjóðkirkjunnar biður kirkjuráð þær og aðra þá sem brotið hefur verið á af hálfu starfsmanna og þjóna kirkjunnar fyrirgefningar. Kirkjuráð harmar þá þjáningu og sársauka sem þau hafa liðið.

Kirkjuráð ítrekar að kynferðisbrot eru ekki liðin innan kirkjunnar og lýsir samstöðu við þá einstaklinga og félagasamtök sem styðja þau sem líða og vinna að forvörnum og vitundarvakningu meðal þjóðarinnar um þessi alvarlegu mál."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×