Innlent

Vill halda í gamla stjórann

svein harald Norðmaðurinn var seðlabankastjóri hér frá febrúarlokum og fram í ágúst í fyrra.Fréttablaðið/Anton
svein harald Norðmaðurinn var seðlabankastjóri hér frá febrúarlokum og fram í ágúst í fyrra.Fréttablaðið/Anton

Svein Harald Øygard er álitlegasti eftirmaður norska seðlabankastjórans. Þetta hefur norska dagblaðið Dagens Næringsliv eftir Svein Gjedrem, núverandi bankastjóra.

Gjedrem hefur vermt bankastjórastólinn frá 1999 og rennur ráðningartími hans út um næstu áramót. Samkvæmt norskum lögum má hann ekki sitja lengur en tvö sex ára tímabil.

Svein Harald þekkir norsku stjórnsýsluna og seðlabankann í þaula en hjá þeim báðum starfaði hann sleitulítið frá 1983 til 1995 þegar hann hóf störf hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey. Þar var hann framkvæmdastjóri áður en hann tók við seðlabankastjórastólnum hér í byrjun síðasta árs. Svein Harald tók aftur við fyrri stöðu þegar hann sneri til Noregs á ný í fyrrahaust.

Svein Harald vildi ekki tjá sig um málið í samtali við Fréttablaðið í gær. Hann sagði þetta vangaveltur í norskum fjölmiðlum og vísaði til umfjöllunar Dagens Næringsliv um málið.

Í blaðinu er haft eftir honum að Gjedrem hafi verið framúrskarandi bankastjóri sem alþjóðasamfélagið taki mark á. Norska ríkisstjórnin verði að breyta lögum og halda í Gjedrem. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×