Innlent

Stofnunin lánaði ekki skúffufyrirtækjum

Rækja Hrun varð í rækjuiðnaðinum 2005 og 2006.
Rækja Hrun varð í rækjuiðnaðinum 2005 og 2006.

Stjórnendur Byggðastofnunar telja að „nokkuð vel“ hafi tekist að gæta hagsmuna stofnunarinnar vegna lána til fyrirtækja í rækjuiðnaði.

Þetta kemur fram í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar Samfylkingunni.

Tilefni fyrirspurnarinnar voru fréttir fyrr á árinu af lánum vegna rækjuveiða til skúffufyrirtækja.

Í svarinu segir að umrædd lán hafi verið veitt rækjuverksmiðjum í fullum rekstri með mikið eigið fé. Rekstrargrundvöllur þeirra hafi brostið vegna hruns í greininni á árunum 2005 og 2006.

Byggðastofnun gekk að veðum í fasteignum og tækjabúnaði en taldi ekki skynsamlegt, vegna takmarkaðs verðgildis við ríkjandi aðstæður, að ganga að skipum og kvóta.

Samið var um að eftirstöðvar lánanna, ásamt þeim veðum sem fyrir þeim voru, yrðu færðar í ný félög og myndu eigendur þeirra halda lánunum í skilum. Var það gert í ljósi þess að bæði eigendur félaganna og starfsmenn Byggðastofnunar gerðu sér vonir um að aðstæður greinarinnar myndu batna.

Í „stórum dráttum“ hafa eigendurnir staðið skil á skuldbindingum sínum og Byggðastofnun fengið hátt í 300 milljónir króna greiddar inn á eftirstöðvar lánanna, að því er fram kemur í svarinu.

„Það er því álit Byggðastofnunar að nokkuð vel hafi tekist að gæta hagsmuna hennar að þessu leyti,“ segir í svarinu.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×