Innlent

Vilja ráðherra á fund vegna Norðlingaölduveitu

Alþingi Þrír þingmenn vilja fund í iðnaðarnefnd vegna áforma um að stækka friðlandið í Þjórsárverum. Þeir segja Norðlingaölduveitu nauðsynlega fyrir atvinnuuppbyggingu.
Alþingi Þrír þingmenn vilja fund í iðnaðarnefnd vegna áforma um að stækka friðlandið í Þjórsárverum. Þeir segja Norðlingaölduveitu nauðsynlega fyrir atvinnuuppbyggingu.

Þrír þingmenn úr stjórn og stjórnarandstöðu vilja að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra komi á fund iðnaðarnefndar til að ræða áform um stækkun friðlands í Þjórsárverum.

Morgunblaðið greindi frá því í gær að ráðherrarnir tveir beiti sér fyrir stækkun friðlandsins í Þjórsárverum í samstarfi við fjármálaráðherra. Gangi breytingin eftir verði ekki hægt að ráðast í Norðlingaölduveitu.

„Norðlingaölduveita þarfnast þess að einungis um 2-3 ferkílómetrar ógróins lands hverfi undir vatn og verður það lón langt utan friðlandsins um Þjósárver," segir í bréfi sem Jón Gunnarsson og Tryggvi Þór Herbertsson, Sjálfstæðisflokki, sendu frá sér í gær með ósk um fund í iðnaðarnefnd. Nauðsynlegt sé vegna efnahagshorfa í landinu að útvega rafmagn til atvinnuuppbyggingar. Norðlingakosturinn sé „einn besti kosturinn sem er í boði út frá umhverfissjónarmiðum".

Í tilkynningu lýsir Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, því yfir að hann styðji ósk Jóns og Tryggva um fund í iðnaðarnefnd vegna málsins. -pg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×