Innlent

Allt flug um Akureyrarflugvöll

Allt flug, til og frá landinu, fer nú um Akureyrarflugvöll á meðan Keflavíkurflugvöllur er lokaður af völdum eldgossins. Mikið álag hefur verið á starfsfólkinu fyrir norðan en allt hefur gengið áfallalaust fyrir sig.

Umferðin um Akureyrarflugvöll hefur án efa aldrei verið meiri en í dag. 12 vélar hafa lent á flugvellinum og 10 vélar hafa flogið þaðan. Unnið er samkvæmt viðbragðsáætlun en það þarf marga til svo að allt gangi smurt fyrir sig. Til að mynda hefur tollstjóraembættið, lögreglan og samhæfingarstöð almannavarna aðstoðað á flugvellinum í dag.

Icelandair og Iceland Express hafa brugðið á það ráð að ferja farþega frá höfuðborgarsvæðinu til Akureyrar með rútum. Á BSÍ í hádeginu var þó nokkur hópur ferðalanga samankominn sem meðal annars átti bókað flug til Berlínar. Þeirra beið rútuferð til Akureyrar og millilending í Kaupmannahöfn. Þeir sem fréttastofa ræddi við voru þó skilningsríkir í garð þessara aðstæðna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×