Innlent

Aðeins fyrir boðsgesti á þjóðardaginn

Ólíkt því sem sjá má hér var engin röð við íslenska skálann á þjóðardegi Íslands á Expo-sýningunni, enda skálinn lokaður öðrum en boðsgestum.
Ólíkt því sem sjá má hér var engin röð við íslenska skálann á þjóðardegi Íslands á Expo-sýningunni, enda skálinn lokaður öðrum en boðsgestum.

Íslenski skálinn á World Expo sýningunni í Sjanghæ var lokaður öðrum en boðsgestum á þjóðardegi Íslands vegna móttöku með forseta Íslands og viðskiptakynningar. Íslendingur sem býr í borginni sótti sýninguna heim ásamt fjölskyldu sinni en kom að skálanum lokuðum.

„Glaðbeittar frúr með perlufestar spígsporuðu inn og út um hliðardyr. Íslensk fjölskylda með tvö börn í kerrum var ekki „sérstakir gestir"," skrifar Kristján Valur Jónsson á Facebook-síðu sína.

Hann segir Íslendinga í borginni hafa verið sérstaklega hvatta til að koma á þessum degi, og því hafi það verið vonbrigði að koma að lokuðum dyrum. Það eina sem minnt hafi á Ísland hafi verið tvær sýningar Latabæjar sem fram hafi farið utan dyra. Hreinn Pálsson, framkvæmdastjóri Expo-þátttökunnar, segir þetta afar leiðan misskilning. Þjóðardagurinn sé ekki þjóðhátíðardagur heldur sá dagur þegar kynningin á Íslandi nái hámarki.

Boðað var til kynningar og blaðamannafundar með forseta Íslands um daginn. Um kvöldið voru boðsgestir íslenskra fyrirtækja ásamt forsetanum á kynningu á Íslandi fyrir kínverska aðila, segir Hreinn. - bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×