Innlent

Vinnubrögð ekki í samræmi við verklagsreglur

Vestmannaeyjar Forstjóri Barnaverndarstofu mun ræða við barnaverndarnefndina í Vestmannaeyjum.
Vestmannaeyjar Forstjóri Barnaverndarstofu mun ræða við barnaverndarnefndina í Vestmannaeyjum.

„Samkvæmt forsendum dóms héraðsdóms var um að ræða verklag sem samræmist ekki þeim faglegu kröfum sem Barnaverndarstofa gerir í málum af þessu tagi.“

Þetta segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, spurður um vinnubrögð við rannsókn á kynferðisbrotamáli í Vestmannaeyjum þar sem rúmur mánuður leið frá því að meint brot átti sér stað þar til brotaþolinn, lítil stúlka, var færð til skýrslutöku í Barnahúsi.

Í millitíðinni var barnið ítrekað yfirheyrt um atvikið hjá sálfræðingi, auk þess sem móðir þess lét það taka þátt í sérstökum leik til að fá fram frásögn þess af því sem gerst hafði. Taldi dómurinn þessa málsmeðferð til þess fallna að rýra sönnunargildi Barnahússskýrslunnar og sýknaði á þeim grundvelli hálf áttræðan mann sem ákærður hafði verið fyrir kynferðisbrotið gegn stúlkubarninu.

„Það er mjög mikilvægt að barnið hafi ekki þurft að sæta ítrekuðum viðtölum við rannsakendur í svona málum áður en það fer í skýrslutöku í Barnahúsi,“ segir Bragi. Hann undirstrikar að ekki sé verið að taka afstöðu til sýknudómsins sem slíks. Hins vegar verði farið yfir málsmeðferðina með starfsmönnum og barnaverndarnefnd og að líkindum gerðar athugasemdir við verklagið að svo búnu.

Nítján konur kærðu manninn í kjölfar kæru foreldra litlu stúlkunnar.

„Þetta er mjög þekkt munstur,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. „Þegar einhver rýfur þögnina þá opnast flóðgáttir. Sumir kynferðisbrotamenn hafa langa slóð á eftir sér.“- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×