Körfubolti

NBA í nótt: Miami vann Atlanta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwyane Wade í leiknum í nótt.
Dwyane Wade í leiknum í nótt. Mynd/AP

Miami vann í nótt sigur á Atlanta, 92-75, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt og batt þar með enda á þriggja leikja taphrinu liðsins.

Dwyane Wade skoraði 28 stig í leiknum og tók átta fráköst. Michael Beasley var með 22 stig, þar af 20 í fyrri hálfleik. Udonis Haslem var með tólf stig.

Atlanta náði sér engan veginn á strik í leiknum en liðið hefur aldrei fyrr í vetur skorað jafnfá stig í einum leik eða hitt jafn illa utan af velli (35,2 prósent).

Jamal Crawford skoraði 23 stig fyrir Atlanta sem hefur nú tapað fjórum leikjum í röð en það er í fyrsta sinn síðan í janúar á síðasta ári sem það gerist.

Oklahoma City vann Chicago, 98-85. Russell Westbrook skoraði 29 stig og Kevin Durant 25 fyrir Oklahoma City sem gerði út um leikinn í þriðja leikhluta.

New Orleans vann Utah, 91-87, þar sem Chris Paul stal boltanum og skoraði mikilvæga körfu þegar 27 sekúndur voru til leiksloka. Þetta var fyrsti sigur New Orleans í Utah í tæp fjögur ár.

LA Clippers vann Portland, 105-95. Chris Kaman var með 20 stig og Eric Gordon nítján fyrir Clippers.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×