Körfubolti

NBA: Oklahoma City vann Dallas og tryggði sig inn í úrslitakeppnina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant hefur leikið vel með Oklahoma City Thunder í vetur.
Kevin Durant hefur leikið vel með Oklahoma City Thunder í vetur. Mynd/AP
Ungu strákarnir í Oklahoma City Thunder hafa vakið mikla hrifningu fyrir frammistöðu sína í NBA-deildinni í vetur og í nótt tryggði liðið sér sæti í úrslitakeppninni með 121-116 útisigri á Dallas Mavericks. Oklahoma City er þegar búið að tvöfalda sigra sína frá því á síðasta tímabili þegar liðið vann aðeins 23 leiki.

Kevin Durant skoraði 23 stig fyrir Oklahoma City og fékk góða hjálp frá þeim Jeff Green (22 stig), Russell Westbrook (17 stig) og Nick Collison (17 stig). Dirk Nowitzki var með 30 stig og 13 fráköst hjá Dallas og Jason Kidd skoraði 24 stig.

Brandon Jennings var með 23 stig þegar Milwaukee Bucks endaði tíu leikja sigurgöngu Phoenix Suns með 107-98 sigri á heimavelli sínum. Milwaukee missti ástralska miðherjann sinn Andrew Bogut upp á sjúkrahús í öðrum leikhluta en vann samt leikinn. Amare Stoudemire skoraði 22 stig fyrir Phoenix og Leandro Barbosa var með 21 stig.

Carmelo Anthony skoraði 24 stig fyrir Denver Nuggets sem vann upp 21 stigs forskot Los Angeles Clippers og tryggði sér 98-90 sigur. Denver-liðið er þar með búið að vinna 50 sigra þrjú tímabil í röð.

Dwyane Wade skoraði 39 stig þegar Miami Heat vann 97-84 sigur á Minnesota Timberwolves en þetta var áttundi sigur liðsins í röð. Wade er búinn að skora 30 stig eða meira í fjórum af síðustu fimm leikjum sínum.

Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:

Philadelphia 76ers-Toronto Raptors 123-128 (framlengt)

Atlanta Hawks-Detroit Pistons 91-85

New Jersey Nets-New Orleans Hornets 115-87

Chicago Bulls-Charlotte Bobcats 96-88

Minnesota Timberwolves-Miami Heat 84-97

Dallas Mavericks-Oklahoma City Thunder 116-121

Milwaukee Bucks-Phoenix Suns 107-98

Denver Nuggets-Los Angeles Clippers 98-90

Sacramento Kings-Portland Trail Blazers 87-98



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×