Fótbolti

Guardiola: Við ætlum að sækja af krafti

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guardiola er hvergi banginn fyrir leikinn í kvöld og ætlar að sækja af fullum krafti. Nordic Photos/AFP
Guardiola er hvergi banginn fyrir leikinn í kvöld og ætlar að sækja af fullum krafti. Nordic Photos/AFP

Rétt eins og aðrir Katalóníubúar þá bíður Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, spenntur eftir leiknum gegn Real Madrid í kvöld. Þó svo andstæðingurinn sé sterkur mun Barcelona spila sóknarbolta eins og alltaf.

"Ég vona að þetta verði frábær leikur. Það er ekkert óeðlilegt að það sé mikil spenna fyrir þennan leik. Það er eðlilegt," sagði Guardiola sem ber mikla virðingu fyrir andstæðingnum.

"Real Madrid er ekki bara frábært lið heldur er það líkamlega sterkt, duglegt og vel skipulagt. Mourinho veit að við munum sækja og Real mun sækja þegar færi gefst til. Ef við töpum þá vil ég geta sagt að við höfum tapað en samt spilað eins og við viljum spila," sagði þjálfarinn sem er sterklega orðaður við Chelsea þessa dagana.





Guardiola óttast ekki að Madrid muni koma honum á óvart í kvöld. Hann segist vita nákvæmlega hvernig Mourinho láti liðið spila.

"Þetta eru tvö góð lið og það mun ekkert koma á óvart. Ég veit hvernig þeir spila og þeir vita hvernig við spilum. Það er ekkert lið sem beitir betri skyndisóknum en Real Madrid. Þar sem Madrid þarf að beita skyndisóknum þarf hitt liðið að sækja. Það munum við gera," sagði Guardiola kokhraustur.

"Þetta verður fallegur leikur. Við munum ekki breyta neinu og munum alls ekki falla aftar á völlinn þó svo við séum að spila gegn Real Madrid. Ég mun alls ekki gera það því á sama tíma er ég að senda leikmönnunum þau skilaboð að ég sé hræddur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×