Innlent

Grunaðir um að þiggja greiðslur

höfundarréttarbrot
Lögregla á eftir að rannsaka innihald tölvubúnaðar sem tekinn var hjá piltunum.
höfundarréttarbrot Lögregla á eftir að rannsaka innihald tölvubúnaðar sem tekinn var hjá piltunum.

Sumir þeirra tíu einstaklinga sem lögregla yfirheyrði vegna stórfellds ólöglegs niðurhals efnis í fyrrakvöld og gærdag eru grunaðir um að hafa fengið greitt fyrir dreifingu þess.

Ekki liggur fyrir í hvaða formi greiðslurnar voru, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins, en það er einn þáttur málsins sem lögregla rannsakar nú.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerði níu húsleitir í fyrradag vegna málsins, sjö á Akureyri og í nágrenni og tvær á höfuðborgarsvæðinu.

Tíu piltar á aldrinum 15 til 20 ára eru grunaðir um aðild að málinu. Þeir voru yfirheyrðir í fyrrakvöld og einhverjir þeirra aftur í gær.

Hald var lagt á margar tölvur og tölvubúnað auk þess sem marijúana, um 80 grömm, fannst í einu húsanna.

Rannsókn málsins hefur staðið yfir um nokkurt skeið. Upphaf þess má rekja til kæru sem Samtök myndrétthafa lögðu fram og sneri að ólöglegu niðurhali og dreifingu höfundarréttarvarins efnis af netinu.

Efnið sem um er að ræða er fyrst og fremst kvikmyndir og sjónvarpsþættir.

Rannsókn málsins miðar vel en mikið verk er fram undan við að fara yfir tölvubúnaðinn sem tekinn var.- jss






Fleiri fréttir

Sjá meira


×