Innlent

Færri kvörtuðu til landlæknis í fyrra

Á ganginum Af 58 kvörtunum sem bárust landlækni og beindust að Landspítalanum voru flestar vegna bráða- og slysalækningadeildar. 44 kvartanir voru á hendur einkastofum lækna.
Á ganginum Af 58 kvörtunum sem bárust landlækni og beindust að Landspítalanum voru flestar vegna bráða- og slysalækningadeildar. 44 kvartanir voru á hendur einkastofum lækna.

Nokkuð færri kvartanir bárust landlæknisembættinu í fyrra en árin tvö þar á undan.

Alls bárust embættinu 237 kvartanir í fyrra en árið 2008 voru þær 282 og árið 2007 voru þær 274.

Þetta kemur fram í ársskýrslu landlæknisembættisins fyrir árið 2009.

Kvartanirnar lúta að samskiptum almennings við þá sem veita heilbrigðisþjónustu. Málin sem um ræðir eru misjafnlega umfangsmikil og alvarleg, allt frá hnökrum í samskiptum til alvarlegra mistaka.

Röng eða ófullnægjandi meðferð var tilefni flestra kvartana árið 2009 eins og verið hefur mörg undanfarin ár. 58 kvartanir beindust að Landspítalanum en það eru talsvert færri tilvik en árin á undan. Af þeim voru fimmtán á hendur bráða- og slysalækningadeild, tíu á hendur geðdeild, tíu á hendur lyflækningadeild og átta á hendur skurðlækningadeild.

Kvartanir á hendur einkastofum lækna voru 44 og fækkaði umtalsvert frá árinu áður, þegar þær voru 71, en fjöldinn var svipaður og árið 2007 þegar 49 kvartanir bárust.

Fram kemur í ársskýrslu landlæknisembættisins að einn heilbrigðisstarfsmaður var sviptur starfsleyfi árið 2009. Tveimur var veitt lögformleg áminning.

Af öðrum aðgerðum landlæknis vegna kvartana má nefna að aðfinnslur voru átján og ábendingar um það sem betur mætti fara 36. Í 104 málum þótti ekki ástæða til aðgerða.

bjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×