Körfubolti

Dwight Howard valinn besti varnarmaðurinn annað árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwight Howard miðherji Orlando Magic.
Dwight Howard miðherji Orlando Magic. Mynd/AP
Dwight Howard miðherji Orlando Magic var í gær útnefndur varnarmaður ársins í NBA-deildinni í körfubolta en þetta er annað árið í röð sem hann hlýtur þessi verðlaun. Howard varð í vetur fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar sem er efstur bæði í fráköstum og vörðum skotum tvö ár í röð.

Dwight Howard fékk alls 576 stig í kjöri körfuboltafréttamanna víðsvegar um Bandaríkin en hann var í fyrsta sæti hjá 110 af 122 þeirra. Josh Smith hjá Atlanta var annar í kjörinu og í þriðja sætinu kom síðan Gerald Wallace hjá Charlotte.

Howard var með 13,2 stig og 2,8 varin skot að meðaltali í leik í vetur en hann er sjöundi leikmaðurinn sem nær því að vera kosinn varnarmaður ársins tvö ár í röð. Hinir eru Ben Wallace, Hakeem Olajuwon, Dikembe Mutombo, Alonzo Mourning, Dennis Rodman og Sidney Moncrief.

Howard varð yngsti varnarmaður ársins frá upphafi þegar hann var kosinn í fyrra og það er ekkert annað sem bendir til þess að þessi 24 ára strákur geti verið áskrifandi að þessum verðlaunum næstu árin. Ben Wallace og Dikembe Mutombo eiga metið en þeir voru fjórum sinnum kosnir varnarmenn ársins.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×