Körfubolti

Kendrick Perkins sleppur við bann - sjöunda tæknivillan dregin til baka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kendrick Perkins, miðherji Boston Celtics.
Kendrick Perkins, miðherji Boston Celtics. Mynd/AP
Kendrick Perkins, miðherji Boston Celtics, verður ekki í banni í sjötta leik Boston Celtics og Orlando Magic í úrslitum Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta en leikurinn fer fram annað kvöld.

Perkins átti að vera kominn í eins leiks bann eftir að hafa fengið tvær tæknivillur í síðasta leik en hann var því kominn yfir kvóta leikmanna sem eru sjö tæknivillur í úrslitakeppni.

NBA-deildin ákvað á fundi sínum í dag að draga sjöundu tæknivillu Perkins til baka sem þýðir að hann verður með í sjötta leiknum í Boston. Orlando hefur unnið tvo leiki í röð en engu liði hefur tekist að koma til baka eftir að hafa lent 3-0 undir í einvígi í úrslitakeppni NBA-deildarinnar.

Kendrick Perkins var rekinn út úr húsi í fyrri hálfleik í fimmta leiknum eftir að hafa fengið þessar tvær tæknivillur. Boston tapaði þarna sínum öðrum leik í röð en liðið fær tvo leiki til viðbótar til þess að ná þessum eina sigri í viðbót og þá er mikilvægt fyrir liðið að hafa Perkins með.

Perkins fékk fyrri tæknivilluna fyrir að slá pólska risann Marcin Gortat í magann en endursýningar sýna að svo var ekki. Sú tæknivilla var samt ekki dregin til baka heldur sú seinni þegar hann mótmælti dómi. Perkins mótmælti þá villu sem dæmd var á hann en gerði það um leið og hann gekk í burtu frá dómaranum sem gaf honum tæknivilluna.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×