Sport

Önnur gullverðlaun Þjóðverja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Maria Riesch fagnar sigrinum í dag.
Maria Riesch fagnar sigrinum í dag. Nordic Photos / AFP
Maria Riesch fagnaði í dag sigri í svigkeppni kvenna á HM í alpagreinum sem fer fram í Val d'Isere í Frakklandi.

Þetta eru önnur gullverðlaun Þjóðverja á mótinu en Sviss og Bandaríkin hafa einnig unnið tvenn gullverðlaun til þessa.

Austurríkismenn hafa oftast unnið til flestra verðlauna á stórmótum en aðeins unnið eitt gull til þessa. Aðeins á eftir að keppa í einni grein á mótinu, í svigi karla á morgun.

Riesch var í sjötta sæti eftir fyrri ferðina en náði frábærum tíma í seinni ferðinni. Hins vegar féllu fjórar af þeim fimm fyrstu eftir fyrri ferðina úr leik í þeirri síðustu, þar af þær þrjár fljótustu.

Sarka Zahrobska frá Tékklandi var í fjórða sæti eftir fyrri ferðina og náði öðru sætinu. Tanja Poutiainen frá Finnlandi var í níunda sæti eftir fyrri ferðina en náði bronsinu.

Manuela Moelgg frá Ítalí, Lindsey Vonn frá Bandaríkjunum og heimastúlkan Sandrine Aubert voru fyrstar eftir fyrri ferðina en féllu allar úr leik. Moelgg var á góðri leið með að ná gullinu af Riesch en missti af hliði á lokakaflanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×