Enski boltinn

United mun líklega lána Macheda til Spánar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Federico Macheda í Meistaradeildarleik á móti Besiktas.
Federico Macheda í Meistaradeildarleik á móti Besiktas. Mynd/AFP

Það eru líkur á því að Manchester United láni Federico Macheda til Spánar þegar félagsskiptaglugginn opnar í næsta mánuði. Macheda átti stóran þátt í því að Manchester United vann enska meistaratitilinn í fyrra en hefur hinsvegar fengið fá tækifæri með liðinu á þessu tímabili.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, er að skoða beiðni frá spænska liðinu Real Zaragoza um að fá ítalska framherjann á láni út tímabilið. Macheda er aðeins átján ára gamall og þarf að spila til að komast á næsta stig sem knattspyrnumaður.

Federico Macheda hefur enn ekki fengið að spreyta sig í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en hann skoraði tvö sigurmörk í fjórum deildarleikjum á síðasta tímabili. Macheda hefur reyndar spilað fimm leiki með United í deildarbikar (3) og Meistaradeild (2) á þessu tímabili en hefur ekki skorað.

Newcastle og ónefnt franskt lið hafa sýnt Macheda áhuga en það þykir líklegast að Ferguson vilji senda hann til Victor Munoz sem er starfandi þjálfari Zaragoza-liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×