Fótbolti

Barcelona tapaði - Real með stórsigur

Higuain fagnar opnunarmarki Real í kvöld
Higuain fagnar opnunarmarki Real í kvöld AFP

Þremur leikjum er lokið í spænsku deildinni í knattspyrnu í kvöld. Barcelona tapaði 2-1 á heimavelli fyrir grönnum sínum í Espanyol, sem fyrir vikið lyftu sér af botninum.

Seydou Keita var rekinn af velli í liði Barcelona á 38. mínútu og eftir markalausan fyrri hálfleik, skoraði Iván De la Peña tvívegis fyrir heimamenn með fjögurra mínútna millibili þegar skammt var liðið á þann síðari.

Yaya Toure náði að minnka muninn fyrir Barcelona á 62. mínútu, en lengra komust Börsungar ekki og máttu sætta sig við annað tap sitt á leiktíðinni - það fyrsta síðan í fyrstu umferð deildarinnar.

Eiður Smári Guðjohnsen var á varamannabekk Barcelona í kvöld og kom inn sem varamaður eftir rúmlega klukkutíma leik fyrir Samuel Eto´o.

Sjö mörk í fyrri hálfleik á Bernabeu

Real Madrid er á mikilli siglingu og í kvöld vann liðið 6-1 stórsigur á Betis á heimavelli sínum.

Gonzalo Higuain opnaði markareikning heimamanna strax á 7. mínútu og Hollendingurinn Klaas-Jan Huntelaar skoraði tvívegis áður en gestirnir minnkuðu muninn á 30. mínútu.

Flugeldasýningin á Bernabeu var fjarri því búin því Raul skoraði tvö mörk og Sergio Ramos bætti við sjötta markinu áður en flautað var til leikhlés. Sem betur fer fyrir Betis urðu mörkin ekki fleiri.

Villarreal vann 2-1 sigur á Sporting Gijon og Sevilla og Atletico mætast síðar í kvöld.

Staðan í spænsku deildinni






Fleiri fréttir

Sjá meira


×