Sport

Phelps óákveðinn hvort hann keppir á næstu Ólympíuleikum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Phelps sundkappi.
Michael Phelps sundkappi. Nordic Photos / AFP

Michael Phelps segist ekki vera búinn að ákveða sig hvort hann ætli að keppa á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012.

Þetta sagði hann í samtali við bandaríska dagblaðið Baltimor Sun í dag. Um helgina birti enska götublaðið News of the World mynd af Phelps þar sem hann var að sjúga á hasspípu í nóvember síðastliðnum en hann hefur þegar beðist afsökunar á hegðun sinni.

„Þetta er mín ákvörðun og ég ætla ekki að taka hana í dag eða á morgun," sagði Phelps um þátttöku sína á næstu Ólympíuleikum. „Ef ég ákveð að hætta þá geri ég það á mínum forsendum. Hvort ég hætti núna eða eftir fjögur ár veit enginn. En þetta er eitthvað sem ég þarf að hugsa vel um og ákveða svo hvað ég ætla að gera."

Phelps hefur unnið alls til fjórtán gullverðlauna á Ólympíuleikum en hann vann átta gull í Peking í sumar og bætti þar með met Mark Spitz sem vann sjö gull á sínum tíma.

Hann hefur áður sagt að hann ætli sér að keppa í færri greinum á næstu Ólympíuleikum til að njóta þeirra betur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×