Sport

Burress fer í tveggja ára fangelsi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Plaxico fyrir utan dómssalinn.
Plaxico fyrir utan dómssalinn. Nordic Photos/AFP

NFL-leikmaðurinn Plaxico Burress mun ekki spila bolta í vetur enda er hann á leið í tveggja ára fangelsi. Burress samdi við saksóknara í dag um að sitja tvö ár í steininum.

Ef hann hefði ekki gengið að tilboðinu þá átti hann yfir höfði sér þriggja og hálfs árs fangelsisdóm.

Málsatvik voru þau að Burress var með byssu á næturklúbbi þar sem ólöglegt er að bera skotvopn. Ekki vildi betur til en svo að Burress skaut sjálfan sig í lærið með byssunni og stórslasaðist.

Hann var kærður fyrir ólöglegan vopnaburð sem og að stofna öðru fólki í hættu. Lágmarksdómur fyrir slíkt er þrjú og hálft ár í steininum. Hann kaus því að semja.

Burress hefur undanfarin ár verið einn öflugasti útherji NFL-deildarinnar og var meðal annars lykilmaður í liði NY Giants sem vann Super Bowl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×