Íslenski boltinn

Embla: Þarf stundum að hugsa um sjálfan sig

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Embla spilar með Val eða Breiðablik í sumar.
Embla spilar með Val eða Breiðablik í sumar. Mynd/Anton

„Ég hef sett mér ákveðin markmið sem ég held að ég nái ekki með KR. Það er aðalástæðan fyrir því að ég hef ákveðið að söðla um og yfirgefa KR," sagði knattspyrnukonan Embla Sigríður Grétarsdóttir sem er á förum frá KR eftir 11 ára dvöl í Vesturbænum.

„Liðið er náttúrulega ekki eins sterkt og það var. Það sjá allir. Þetta er virkilega stórt ár fyrir kvennaboltann og ég hef mikinn metnað fyrir því að komast aftur í landsliðshópinn," sagði Embla sem datt út úr hópnum vegna meiðsla en er kominn á fullt aftur.

„Ég hef verið að æfa með KR en hafði ekki góða tilfinningu fyrir þessu. Tempóið á æfingum var því miður ekki að henta mér. Ég þarf að komast í betra form ef ég ætla að komast aftur í landsliðið og ég tel mig ekki geta gert það hjá KR því miður," sagði Embla og bætti við að hún hefði einnig gott af tilbreytingu eftir 11 ár hjá KR.

„Þetta var alls ekkert auðveld ákvörðun enda ól KR mig upp sem fótboltakonu og mér þykir vænt um félagið. Þetta var erfið ákvörðun en rétt. Ég hef mikinn metnað og stundum verður maður að hugsa um sjálfan sig til að eiga möguleika. Ég er að gera það núna. Svo vil ég líka vinna en það hefur ekki alltaf gengið sem best," sagði Embla en hvert ætlar hún?

„Valið stendur á milli Vals eða Breiðablik. Það er áhugi frá báðum liðum og ég hef áhuga á báðum félögum. Ég þarf aðeins að skoða þetta og ræða við þjálfarana. Ætla samt ekki að taka mér langan tíma í það," sagði Embla Sigríður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×