Körfubolti

NBA í nótt: Ellefu í röð hjá Boston

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Marc Gasol í leiknum í nótt.
Marc Gasol í leiknum í nótt. Mynd/AP

Boston Celtics vann sinn ellefta leik í röð í NBA-deildinni í körfubolta í nótt er liðið bar sigurorð af Memphis á útivelli, 110-105.

Ray Allen var stigahæstur hjá Boston með nítján stig en þeir Ray Allen og Rajon Rondo voru með átján hvor en Rondo gaf einnig níu stoðsendingar. Rasheed Wallace skoraði fimmtán stig og þeir Kendrick Perkins og Kevin Garnett þrettán.

Hjá Memphis var Rudy Gay stigahæstur með 23 stig. OJ Mayo var með 21 og Zach Randolph 20.

Þetta var jafn leikur en mest náði Boston átta stiga forystu þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka. Memphis svaraði með því að skora sex stig í röð en nær komst liðið ekki.

Philadelphia vann Golden State, 117-101. Thaddeus Young var með 26 stig og fjórtán fráköst, Allen Iverson kom næstur með 20. Þetta var langþráður sigur hjá Philadelphia enda hafði liðið tapað tólf leikjum í röð.

Dallas vann New Orleans, 94-90. JJ Barea skoraði 23 stig en Dirk Nowitzky aðeins tíu stig sem er það minnsta sem hann hefur skorað í einum leik á tímabilinu. Fjögur stiganna komu þó á lokamínútunni sem reyndist dýrmætt fyrir Dallas.

Orlando vann Indiana, 106-98. Dwight Howard var með 21 stig og 23 fráköst fyrir Orlando.

Minnesota vann Utah, 110-108, þar sem Jonny Flynn tryggði sínum mönnum sigur með sniðskoti þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka. Þetta var annar sigur Minnesota á Utah á tímabilinu.

Denver vann Oklahoma City, 102-93. Carmelo Anthony skoraði 31 stig en þetta var hans fjórði leikur í röð þar sem hann skorar minnst 30 stig. Þetta var fimmti sigur Denver á Oklahoma City í röð.

LA Clippers vann Washington, 97-95. Eric Gordon skoraði 29 stig, þar á meðal síðustu körfu leiksins þegar ellefu sekúndur voru eftir af leiknum. Washington tapaði svo boltanum í síðustu sókn sinni og Clippers fagnaði góðum sigri.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×