Skoðun

Opinber afskipti en ekki pólitísk

árni páll árnason skrifar
Árni Páll Árnason skrifar um ríkisafskipti:

Undanfarið hefur verið nokkur umræða um þær tillögur nefndar ríkisstjórnarinnar, sem Mats Josefsson veitir forstöðu, að styrkja þurfi eigendahlutverk ríkisins gagnvart nýjum ríkisbönkum og taka með skipulegri hætti á erfiðum skuldamálum en hingað til hefur verið gert.

Vart hefur orðið ótta um að í þeirri leið felist aukin hætta á pólitískum afskiptum og afturhvarf til þess pólitíska skömmtunarkerfis sem við bjuggum við áratugum saman. Fátt er fjær sanni.

Ríkið er nú eigandi þriggja stærstu banka landsins. Verulegs frumkvæðis er þörf af hálfu ríkisins til að koma efnahagslífinu aftur á kjöl. Við þær aðstæður er val um tvennt: Að fulltrúar ríkisins í hverjum banka um sig taki ákvarðanir eða að þær séu teknar á einum stað með samræmdum hætti. Augljóst er hvort fyrirkomulagið veldur meiri hættu á ógagnsæi, spillingu og því að tekið sé með ósambærilegum hætti á sambærilegum málum.

Stefnumörkun Josefsson-nefndarinnar tryggir að einn aðili sinni úrvinnslu stærstu og flóknustu skuldamála bankanna þar sem hægt er að koma við endurfjármögnun og endurskipulagningu í rekstri. Ætlunin er að eignaumsýslufyrirtækið starfi á grundvelli almennra leikreglna og sú staðreynd mun auðvelda að halda viðskiptamálefnum í hæfilegri fjarlægð frá pólitískri hagsmunagæslu.

Enginn vill afturhvarf til pólitískrar íhlutunar í viðskiptaákvarðanir banka. En almenningur á rétt á að tekið sé á sambærilegum málum með sambærilegum aðferðum og að tryggt sé að hagsmunir ríkisins séu varðir með almennum leikreglum, frekar en að tilviljun ráði ákvörðunum og þær séu allar vafðar í þoku ógagnsæis og efasemda vegna flókinna vináttu- og eignatengsla.

Afskiptaleysi ríkisvaldsins af fjármálamarkaði og stefnuleysi hins opinbera í uppbyggingu fjármálamarkaða á stóran þátt í því hruni sem orðið hefur. Það er tímabært að við tileinkum okkur virk, fagleg og gagnsæ ríkisafskipti af þeirri gerð sem stutt hafa við efnahagslega velferð í nágrannalöndum okkar um áratugi.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×