Sport

Murray úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andy Murray datt úr leik í Melbourne í nótt.
Andy Murray datt úr leik í Melbourne í nótt. Nordic Photos / AFP

Skotinn Andy Murray féll í nótt úr leik á opna ástralska meistaramótinu í tennis er hann tapaði fyrir Spánverjanum Fernando Verdasco í fimm settum.

Fyrir leikinn voru sex af átta sterkustu mönnum mótsins komnir áfram í fjórðungsúrslitin. Murray er í fjórða sæti en Verdasco í því fjórtánda.

Nú eigast þeir Jo-Wilfried Tsonga (5. sæti) og James Blake (9. sæti) við í síðustu viðureigninni í 16-manna úrslitunum.

Murray byrjaði betur og komst tvívegis einu setti yfir í viðureigninni en Verdasco vann síðustu tvö settin og fagnaði góðum sigri, 2-6, 6-1, 1-6, 6-3 og 6-4.

Verdasco mætir sigurvegaranum úr viðureign Tsonga og Blake í fjórðungsúrslitunum.

Þetta er mikið áfall fyrir Murray en margir reiknuðu með því að hann myndi komast afar langt í mótinu enda búinn að sýna það á undanförnum vikum og mánuðum að hann er í hörkuformi. Hann var ósigraður á árinu og hafði til að mynda unnið bæði Rafael Nadal og Roger Federer.

Fyrr í nóttt vann Rafael Nadal auðveldan sigur á Fernando Gonzalez frá Chile í þremur settum, 6-3, 6-4 og 6-2.

Þessir mætast í fjórðungsúrslitunum:

Rafael Nadal (1) - Gilles Simon (6)

Fernando Verdasco (14) - Tsonga/Blake

Andy Roddick (7) - Novak Djokovic (3)

Juan Martin del Potro (8) - Roger Federer (2)








Fleiri fréttir

Sjá meira


×