Erlent

Réttar­höld hefjast yfir Josef Fritzl

Óli Tynes skrifar
Josef Fritzl
Josef Fritzl

Þegar Elísabet Fritsel var átján ára gömul bað Jósef faðir hennar hana um að hjálpa sér að bera eitthvað dót ofan í kjallara. Þaðan átti Elísabet ekki afturkvæmt í tuttugu og fjögur ár.

Í öll þessi ár var hún kynlífsleikfang föður síns sem fór niður í kjallarann og nauðgaði henni þegar hann langaði til.

Sjö sinnum gerði hann hana ófríska og þegar eitt barnið dó henti hann líkinu í miðstöðvarofn fjölbýlishússins þar sem þau bjuggu.

Austurríkismenn hryllir við þessum réttarhöldum sem mun beina sjónum heimsins að landinu. Nær tvöhundruð blaðamenn frá öllum heimshornum hafa sótt um að fá að vera viðstaddir réttarhöldin.

Þeir sem fá það leyfi fá þó aðeins að vera viðstaddir fyrsta og síðasta dag réttarhaldanna.

Dómarinn í málinu segir að þau verði að öðru leyti lokuð til þess að vernda fórnarlömbin.

Í málinu sé margt sem þeir vilji ekki að komi fyrir almenningssjónir. Kviðdómendum hefur verið hótað fangelsi ef þeir segja frá því sem þeir heyra.

Kviðdómendur sem eru átta talsins verða undir eftirliti og vernd lögreglu meðan á réttarhöldunum stendur en búist er við að þeim ljúki næstkomandi föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×