Viðskipti innlent

Seðlabankinn vildi lækka stýrivexti

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri.
Davíð Oddsson, seðlabankastjóri. Mynd/GVA

Bankastjórn Seðlabankans vildi lækka stýrivexti í dag. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvatti hins vegar til að vöxtum yrði haldið óbreyttum í 18 prósentum að sinni vegna tímabundinnar óvissu í íslenskum stjórnmálum.

Þetta kemur fram í stefnuyfirlýsingu bankastjórnar Seðlabankans í Peningamálum, sem birt var á vef bankans í dag.

Í stefnuyfirlýsingu bankastjórnarinnar er tæpt á stöðu mála. Þá segir að frá því síðasta ákvörðun bankastjórnar um stýrivexti var kynnt og bankinn birti spár sérfræðinga sinna í byrjun nóvember í fyrra hafi ýmsir þætti efnahagsmála skýrst, þótt óvissa sé eðli málsins samkvæmt enn afar mikil.

Bankinn segir að þrátt fyrir aðgerðir sé raungengið enn mjög lágt og langt undir sögulegu meðaltali þrátt fyrir tíu prósenta styrkingu síðasta hálfa mánuðinn. Það er undir væntingum bankans.

Þá segir að samfara vaxandi afgangi á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd séu forsendur fyrir umtalsverðri gengishækkun. Á móti vegi að viðskiptakjör hafi versnað nokkuð, á sumum sviðum verulega þar sem hagvöxtur hafi almennt dregist saman í viðskiptalöndum Íslands.

Bankinn segir svo virðast sem verðbólga hafi nú náð hámarki og reiknar með að hún muni gefa hratt eftir í ár. Verði hún komin nálægt 2,5 prósentum að ári.

Bankastjórnin taldi að með hjaðnandi verðbólgu muni gefast færi á að lækka stýrivexti töluvert hratt án þess að stefna markmiðlum bankans í gengis- og verðlagsmálum í tvísýnu. Afstaðan var kynnt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Framkvæmdastjóri sjóðsins hvatt hins vegar til þess að vöxtum yrði haldið óbreyttum, meðal annars vegna tímabundinnar óvissu í íslenskum stjórnmálum.

„Bankastjórn þykir rétt að taka mið af þessum tilmælum," líkt og segir í stefnuyfirlýsingunni.

Peningamál










Fleiri fréttir

Sjá meira


×