Fótbolti

Rossi hugsar sér til hreyfings - áhugi frá Juventus

Ómar Þorgeirsson skrifar
Giuseppe Rossi.
Giuseppe Rossi. Nordic photos/AFP

Umboðsmaður framherjans Giuseppe Rossi hjá Villarreal hefur viðurkennt að hann búist við því að skjólstæðingur sinn muni brátt yfirgefa herbúðir spænska félagsins en á síður von á því að það verði í janúar.

Umboðsmaðurinn staðfesti að rússnesku meistararnir í Rubin Kazan væru á eftir honum en að Juventus væri einnig að fylgjast náið með honum.

„Áhugi frá Rubin Kazan hefur verið til staðar í nokkurn tíma núna en ég tel líklegra að Rossi muni íhuga boð frá ítölskum og spænskum félögum. Rossi stefnir á að vera í lokahópu ítalska landsliðsins sem fer á HM næsta sumar og því væri Rússland ekki skref í rétta átt hvað það varðar.

Ég á reyndar síður von á því að eitthvað muni gerast í janúar. Leikmenn á borð við Rossi hugsa sér yfirleitt frekar til hreyfings á sumrin," segir umboðsmaðurinn Andrea Pastorello í viðtali við vefmiðilinn Novantesimo.it.

Hinn 22 ára gamli Rossi hefur þótt leika vel með Villarreal síðan hann kom til félagsins frá Manchester United í júlí árið 2007 og skorað 26 mörk í 68 leikjum til þessa en United ku vera með forkaupsrétt á honum fari svo að hann yfirgefi herbúðir Villarreal.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×