Íslenski boltinn

Þorkell Máni: Það sjá allir hver er vendipunkturinn í þessum leik

Óskar ófeigur Jónsson skrifar
Þorkell Máni Pétursson, þjálfari Stjörnunnar.
Þorkell Máni Pétursson, þjálfari Stjörnunnar.

Stjörnukonur þurftu að horfa á eftir Lengjubikarnum í blálokin eftir að hafa komist tvisvar yfir á móti Þór/KA í úrslitaleiknum í Kórnum í dag. Þór/KA vann leikinn 3-2 með marki í uppbótartíma.

„Við vorum lengst af góðar í þessum leik en ekki nógu góðar því við náðum ekki að vinna," sagði Þorkell Máni Pétursson, þjálfari Stjörnunnar sem gat ekki leynt vonbrigðum sínum enda var Stjarnan 2-1 yfir þegar aðeins sjö mínútur voru eftir.

„Það sjá allir hver er vendipunkturinn í þessum leik," sagði Þorkell Máni og vísar þá til þess þegar fyrirliði hans og markvörður, Sandra Sigurðardóttir, fékk rauða spjaldið á 83. mínútu fyrir að taka boltann með hendinni fyrir utan teig í stöðunni 2-1 fyrir Stjörnuna.

„Við vorum orðnar manni færri og fáum líka á okkur mark beint úr aukaspyrnunni. Þetta var þvílíkt svekkelsi fyrir liðið en mér fannst við samt vera að standa okkur einum færri," sagði Þorkell.

„Það er margt jákvætt í þessu því við erum búin að lenda í alveg fáranlega mikið af meiðslum og mannabreytingum á stuttum tíma. Við erum samt komnar í úrslitaleik og áttum fyllilega skilið að fara alla leið," sagði Þorkell.

„Það er gaman að sjá að það eru tvö ný lið í úrslitaleiknum. Það er engin skömm að tapa fyrir Þór/KA því þær eru með frábært lið og eiga eftir að vera í toppbaráttunni í sumar," sagði Þorkell að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×