Íslenski boltinn

Federer getur jafnað met Pete Sampras

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Federer og Del Potro féllust í faðma eftir leikinn í gær.
Federer og Del Potro féllust í faðma eftir leikinn í gær. Nordicphotos/GettyImages
Roger Federer getur unnið sinn fyrsta opna franska titil á morgun þegar hann mætir Svíanum Robin Soderling á Roland Garros á morgun. Svíinn vann Fernando Gonzalez en Federer lagði Juan Martin del Potro. Báðir leikirnir unnust 3-2.

Federer getur jafnað met Pete Sampras sem vann 14 stóra titla en Federer er kominn með 13. Hann hefur aldrei unnið opna franska mótið.

„Eftir leikinn óskaði ég honum til hamingju og góðs gengis. Ég sagði honum að það vilji allir að hann vinni titilinn," sagði Del Potro sem felldi tár eftir tapið.

„Ég vildi komast í úrslitin en leikurinn fjaraði frá mér. Ég er mjög leiður yfir því. Núna þarf ég bara að horfa á úrslitin í sjónvarpinu," sagði Argentínumaðurinn.

Federer var í skýjunum. „Ég er nokkuð heppinn en ég barðist vel gegn Juan Martin sem spilaði virkilega vel. Ég man ekki eftir fimm setta leik þar sem ég þurfti að hreyfa mig jafn mikið. Það er stórkostleg tilfinning að vinna svona leiki," sagði Federer.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×